<$BlogRSDUrl$>

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

koddaslagur 

Jæja þá er ég loksins komin með orku til að ráðast í það yfirþyrmandi verkefni að taka til og þrífa í íbúðinni minni. Hefur ekki verið meira en kattaþvottur og málamynda tiltektir síðastliðna 2 mánuði.

Fyrst á dagskrá: skipta á rúminu!
Ég fékk e-n tíman köflótt rúmföt í jóla- eða afmælisgjöf frá M&P. Mjög smekkleg rúmföt sem hafa verið í miklu uppáhaldi. Fékk auðvitað sett með fyrir tvær sængur og tvo kodda, það lá beinast við þar sem ég var í sambúð á þeim tíma ef ég man rétt. En síðan þá hef ég bara haft eina sæng og tvo kodda, þannig að ég verð alltaf að vanda mig við að nota bæði sængurverin jafn mikið og þvo þau jafn oft, svo annað upplitist ekki meira en hitt, svo það líti nú vel út ef ég nú einhvern tímann vonandi kannski gifti mig áður en þessi blessuðu rúmföt eru orðin gatslitin.
En semsagt nú dró ég hitt sængurverið fram, en þar sem ég er með tvo kodda, þá eru bæði koddaverin í stíl farin í þvott. Hmmm, svo á ég bara stök koddaver sem auðvitað passa ekkert við köflótta sængurverið mitt. En svo allt í einu gerði ég mér grein fyrir því að það þarf ekkert alltaf allt að vera í stíl. Hver á svo sem eftir að sjá þetta, ég sef jú ein og hver sem kemur í heimsókn sér jú bara rúmteppið sem hylur allt saman.

Þannig að nú er:
grænt lak
brún köflótt sæng
bleikur koddi með svörtum doppum
hvítur koddi með bláum blómum

Voða voða fínt
En svo getur maður spurt sig....af hverju er ég með tvo kodda? Ekki er ég með tvö höfuð. Og ég hef ekki haft kærasta í 4 1/2 mánuð, og ekki haft kærasta sem hefur sofið í rúminu mínu í rúmt ár.
Er þetta bara gamall vani? Lítur kannski betur út undir rúmteppinu í tvíbreiðu rúmi? Eða er þetta kannski bara veik von um næturselskap fyrr en síðar?

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter