<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, janúar 15, 2005

Loksins rann stóri dagurinn upp.. 

Ég mætti á spítalann eldsnemma um morguninn eftir 3ja tíma svefn. Fékk í hendurnar hvolp sem ég átti að skoða og finna hvað væri að. Hann var alveg ofsalega sætur, en vildi auðvitað ekkert standa kjur á meðan ég skoðaði hann, og svo sleikti hann mig stanslaust í framan meðan ég var að skrifa. Hann virtist semsagt bara frekar hress og ég fann voða lítið við skoðunina. Svo ég pantaði blóðprufur, þvagprufu, og svo röntgen og sónar, í von um að finna eitthvað sem gæti varpað ljósi á einhvern sjúkdóm. Það eina sem ég sá eitthvað óeðlilegt var smá blóð í þvaginu og kristallar og datt því í hug þvagsteinar, því hann átti erfitt með að pissa og ég vissi að hann var ekki með þvagfæra sýkingu. En svo þegar ég átti að verja þetta fyrir framan dýralæknana þá kom í ljós að hvolpurinn var með polypper í þvagblöðrunni sem er einhvers konar fæðingargalli, sem ég hefði átt að sjá á sónarmyndunum.....en ég sá það því miður ekki. Svo var hann líka með annan fæðingargalla sem heitir distichiasis, en það fattaði ég sem betur fer sjálf þegar þau fóru að spurja mig eitthvað nánar út í augun á honum. Sem sagt gekk ekkert súper dúper, en ég gat samt svarað eiginlega öllu sem ég var spurð um og ég fékk einkunnina 8.

Svo var röðin komin að skurðlækningunum og ég dró aðgerðina tracheostomi. Ég fékk að undirbúa mig í hálftíma og hripaði eitthvað niður á blað. Svo gekk ég inn og fékk munnræpu og talaði og talaði svo dýralæknarnir kæmust ekkert að til að spurja mig. Þangað til ég svo átti að fara að gera aðgerðina á dauðum ketti sem lá fyrir framan mig. Allt í einu var ég bara með 10 þumalputta og varð eitthvað voða klaufaleg, hafði náttúrulega bara lesið um þessa aðgerð í bók og aldrei gert hana.
úff hvar á ég nú að skera og hversu langt......bíddu nú við þessi vöðvi lítur allt öðruvísi út hérna en hann gerði í bókinni....bíddu hva hva....oh.. jú ok hjúkket þarna er barkinn loksins...... ok Freyja alveg róleg bara pínkulítinn skurð milli brjóskhringjanna og svoooo..hálfhriiiiing...VúPS...ónei ónei...ég skar yfir 3 brjóskhringi. "Hvað ertu eiginlega að reyna að gera?" heyrist í dýralækninum. "Ehhhh....sko......ég ætlaði ekki.....ég var bara að reyna að gera svona hálfhring.." sagði ég og benti í áttina að glósunum mínum "ég var sko búin að teikna það." "En sko......þetta er eitthvað svo lítill köttur og þetta er allt miklu minna en ég hafði búist við oooog......þetta var alveg óvart." "jæja sýndu okkur þá að þú getir saumað húðina saman." "Já ekkert mál, ég kann alveg að sauma. Sjáiði til, það allra mikilvægasta þegar maður saumar í húðina er að gera hnútinn ekki of þéttann því sárið á eftir að bólgna.....sem sagt.....SVONA....nei úps ég herti aðeins of mikið á, þetta er ekki alveg......já það er einmitt þetta sem ég er að meina að maður á ekki að gera..he he.."Þetta var nú samt ekki svo slæmt heldur, ég fékk líka einkunnina 8 fyrir skurðlækningar, og svo sögðu þau við mig að ég væri með teóríuna alveg á hreinu og ég yrði örugglega mjög góður dýralæknir. En þar sem þetta væri nú praktískt próf þá fengi ég bara 8 því ég hefði verið óörugg og hikandi þegar ég gerði sjálfa aðgerðina.

Og nú eftir 3ja daga hvíld og 1 semi-fyllerí er ég næstum tilbúin til að setjast aftur á minn flata rass og lesa um hesta, kindur, kýr og svín. Það er samt pínu erfitt að einbeita sér. Ég er ennþá í sæluvímu yfir að vera búin að ná smádýraprófunum og hafa fengið að heyra að ég yrði nú örugglega góður dýralæknir....!

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter