<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, mars 05, 2012

Una cervesa por favor! 

(skrifað 3.mars 2012)


Jæja - klukkan er 5, aðfaranótt laugardags og ég er nýkomin úr sturtu eftir að hafa verið öll útötuð í bjór - hár, andlit, fötin og allt. Vá, sú hefur aldeilis verið að djamma, gætir þú verið að hugsa með þér. En nei nei, það voru sko aðrir að djamma en ekki ég!


En spólum aðeins til baka.


Við komum semsagt til Argentínu fyrir 5 dögum síðan og höfum eldað góðan mat, spókað okkur í sólinni og skoðað Palermo, hverfið sem við búum í. Það er búið að vera yndislegt þó að íbúðin sem við leigjum hafi ekki verið alveg eins og við bjuggumst við. "This amazing brand new apartment..." eins og henni var lýst á heimasíðunni, var hvorki amazing eða brand new, með a.m.k. 5 ára ryklagi á ljósakrónunni, flagnandi málningu, hurðahún sem datt í sífellu af, ónýtum sturtuhaus og biluðum lás á svalahurðinni, svo ég nefni nokkur atriði. En eftir að hafa kvartað var eitthvað af þessu lagað og við vorum bara orðin nokkuð sátt.... þar til í kvöld.


Þá hófst partý í garðinum! Frekar saklaust til að byrja með en smátt og smátt fór tónlistin að hækka og fleira fólk fór að tínast í partýið. Og ég tek það fram að þetta er lítill garður, bara fyrir ca 10 íbúðir, og við erum á 1.hæð, nánast bara í partýinu.


1:00 Fríða María glaðvaknar og ég stend við gluggann með hana í fanginu og horfi með hneykslunarsvip á fólkið. Nokkrir horfa á móti og brosa.


2:00 Bassinn er hækkaður og komin diskóljós. Ég fer út á svalir, enn með Fríðu Maríu í fanginu til að reyna að skora samúðarstig, og öskra yfir garðinn að þau lækki tónlistina. Það heyrist varla í mér því tónlistin er orðin svo há og fólkið horfir bara á mig eins og ég sé klikkuð.


3:00 Hávaðinn er óbærilegur og nú er fjöldi partýgesta um 50 og komin diskóljós og alles. Ég fer út í garð...með Fríðu Maríu í fanginu. Samstundis koma að tveir gaurar sem standa að partýinu. Ég helli mér yfir þá og þeir eru voða sorrý yfir því að barnið mitt geti ekki sofið... en segjast samt ekki geta stoppað partýið aaaaalveg strax... "bara nokkrir klukkutímar í viðbót" segir annar þeirra. "Nokkrir klukkutímar!" segi ég alveg hneyksluð, "þið fáið 10 mínútur" og svo strunsa ég í burtu.


4:20 Fríða María er loksins sofnuð, en hvernig hún fór að því er ofar mínum skilningi því ég heyri ekki í mínum eigin hugsunum. Ég er orðin svo brjáluð að ég er farin að velta fyrir mér hvaða hlutum ég geti hent í fólkið bara til að fá smá útrás fyrir reiðina. Loks strunsa ég enn og aftur út, í þetta sinn treð ég mér í gegnum þvöguna og fer alla leið að gaurunum á græjunum. Ég heimta að þeir lækki tónlistina, en þeir þykjast ekki heyra í mér og stara bara áhugalausum augum á tölvuskjáinn. Þá skelli ég saman tölvunni og þeir horfa bara hneyklsaðir á mig. Í því koma aðvífandi gaurarnir tveir frá því áðan, og með þeim þriðji gaurinn sem á víst afmæli og er heiðursgestur þessarar samkomu. Allir þykjast þeir vera voða sorrý en reyna samt aðallega að skipta um umræðuefni með því að spyrja hvað ég heiti og hvaðan ég er. "Eigum við ekki að koma einhvert þar sem við talað betur saman, það heyrist svo lítið hér," segir einn þeirra. "Heyrist lítið! Já það er einmitt vandamálið," segi ég og skelli tölvunni aftur saman hjá strákunum með tónlistina. Annar þeirra verður reiðilegur og hækkar frekar tónlistina heldur en lækkar. Þá missi ég mig og gríp næsta bjórglas og helli yfir hann. Hann grípur þá annað bjórglas og skvettir á mig. Þá upphefst bjórslagur á milli okkar og við náum að tæma úr þónokkrum bjórglösum yfir hausinn á hvort öðru áður en strákarnir stöðva okkur. Afmælisbarnið dregur mig afsíðis og vill endilega bjóða mér handklæði, en ég afþakka það og gef lítið fyrir allt hans sweet-talk en að endingu lofar hann að lækka tónlistina aðeins og stöðva partýið um fimmleytið.


5:00 Ég held svei mér þá að hann hafi staðið við loforðið... tónlistin er að fjara út og fólk virðist vera að fara :-)


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter