<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, mars 17, 2012

Sunnudagsafvötnun 

Síðastliðna viku hefur Fríða María leitt foreldra sína um götur Buenos Aires, en ekki öfugt... nei það er nú kannski í ofsögum sagt en þegar áfengið er ódýrara en vatn er hætta á að neyslan á þessum eðalveigum fari aðeins fram úr hófi. Rauðvín með hádegismatnum, bjór til að svala þorstanum fram eftir degi, rauðvín með kvöldmatnum og svo meiri bjór og meira rauðvín... Þegar ég vaknaði með timburmenn á sunnudaginn var ég komin með nóg og hef haldið mig við vatn að mestu leyti síðan.

En hvað erum við svo búin að vera að gera samhliða allri þessari drykkju? Jú, fara út að borða og gæða okkur á dýrindis steikum, dilla mjöðmunum á salsastað, fara í skoðunarferðir um borgina og ýmislegt fleira. Og það besta er að Fríða María hefur fengið frí frá hífuðum foreldrunum stöku sinnum, þar sem við höfum verið svo heppin að fá pössun fyrir hana. Fríða María hefur verið hæstánægð með pössunarpíurnar þó að aðeins ein af þremur hafi talað íslensku. Um daginn þegar Isabel passaði hana meðan við fórum í skoðunarferð um borgina, sagði ég ”bless Fríða María” og dóttir mín rétt svo leit upp og svaraði ”chao” og hélt svo áfram að leika.


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter