<$BlogRSDUrl$>

laugardagur, febrúar 18, 2012

Á miðbaug jarðar 

Eftir að hafa dustað þykku ryklagi af spænskunni minni er ég loks farin að segja orð og setningar sem ég hélt að væru löngu gleymd og grafin. Það er svo skrítið hvernig þetta virðist birtast aftur þegar maður er kominn í kunnuglegt umhverfi.

Það var magnað að sjá Quito aftur, höfuðborg Ecuador, sem er í 2800 metra hæð yfir sjávarmáli. Það hefur margt breyst síðan ég var hér síðast fyrir 10 árum síðan, þetta er orðin mun nútímalegri borg. Það eru flottari verslanir og veitingastaðir, fólk klæðir sig smekklegar og mun færri að betla. Ecuador var ein fátækasta þjóðin í S-Ameríku, en nú virðist efnahagurinn aðeins vera að glæðast hjá þeim. Gædinn okkar, Christian, segir að þetta sé vegna þess að svo margir Ecuador búar séu nú fluttir til annarra landa, t.d. í Evrópu, og sendi hluta af launum sínum til fjölskyldunnar heima. Þetta sé stærsta tekjulindin í dag, sem mér finnst alveg ótrúlegt.

En jæja, við erum búin að skoða Quito og svo fórum við til Mindo sem er í skýjaskógi (cloud-forest) ca 2 tíma frá Quito. Þar tókum við ansi prímitívan kláf yfir stórt og mikið gljúfur, og við María vorum svolítið smeykar því þetta var nú ekki sérlega traustvekjandi aðbúnaður. Það var líka grenjandi rigning en við létum okkur nú samt hafa þetta. Þegar við komumst yfir heil á húfi hrópaði Fríða María "Aftur!!!" því henni fannst þetta svo gaman. Eftir að við gengum niður að fossi nokkrum og svo upp aftur varð henni að ósk sinni því við urðum að taka kláfinn aftur tilbaka yfir gljúfrið.

Svo skoðuðum við fiðrildabúgarð og litla súkkulaðiverksmiðju þar sem við keyptum langbestu brownies sem ég hef nokkurn tíma smakkað, nammi namm.

Í gær keyrðum við svo til Otavalo og heimsóttum meðal annars hljóðfærasmið sem sýndi okkur hvernig hann býr til panflautu. Svo spilaði hann fyrir okkur og Fríða María fékk að spila undir á nokkurs konar kinda-klaufa-hristu. Barnabarn mannsins spilaði líka undir.

Otavalo er bær sem er frægur fyrir að vera með stærsta handverksmarkaðinn í S-Ameríku. Í dag fórum við á markaðinn og skoðuðum heilmikið og keyptum eitthvað. Við tróðum okkur í gegnum þvöguna með kerruna því Fríða María var sofandi. Það var hálf hallærislegt að vera með kerru á indíánamarkaði þar sem göturnar eru holóttar mannmergðin svakaleg, en hvað um það, Fríða María svaf vært og kærði sig kollótta um það hvort við værum í einhverjum vandræðum með að komast um.


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter