<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, febrúar 27, 2012

Í regnskóginum 

Rigning, rigning – endalaus rigning! Það var svo sem við því að búast í regnskógi. En samt ekki, því minningar mínar úr regnskóginum voru bara raki og hiti og örsjaldan rigning, og þá yfirleitt bara stuttur regnskúr. En hingað vorum við semsagt komin og ég sem hafði ætlað að sýna mínum heittelskaða og fjölskyldunni þessar gömlu ”heimaslóðir” mínar. En svona í rigningunni var sjarminn takmarkaður.

Við vorum því ekkert að flýta okkur dýpra inn í skóginn. Héldum okkur í Iyarina Lodge fram að hádegi og Fríða María eignaðist tvær nýjar vinkonur á þessum örfáu klukkutímum. Við lögðum af stað eftir hádegi og héldum að það myndi stytta upp hvað úr hverju en rigningin virtist endalaus.

Eftir stutt stopp hjá Kichua fjölskyldu og matarhlé í Mishualli héldum við loks í átt að Puerto Barantilla og ég var orðin mjög spennt. En ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum þegar vegurinn virtist bara verða flottari og nútímalegri eftir því sem við keyrðum lengra. Ég trúði þessu varla og mér fannst ég ekkert kannast við mig. Það kom í ljós að gædinn okkar Christian hafði tekið ranga beygju og við urðum því að snúa við. Þegar við svo keyrðum rétta leið varð vegurinn án malbiks og holóttur eins og ég mundi eftir honum. Og skógurinn í kringum okkur þéttist og þéttist. Eftir því sem skógurinn varð þéttari jókst eftirvæntingin og spennan hjá mér en tengdamamma varð þeim mun órólegri. Við vorum jú á leið út úr allri siðmenningu, en að mínu mati var það einmitt meiningin.

Rétt áður en við komum til Puerto Barantilla braust sólin fram úr skýjunum og ég réð mér varla fyrir kæti. Svo sigldum við með kanó eftir Rio Arajuno, og Fríða María benti á brúnu ána og sagði ”súkkulaðivatn!”

Svo komum við loks til Liana Lodge, hótelsins sem mig dreymdi um að gista á þegar ég var sveittur og skítugur sjálfboðaliði í Amazoonico. Og Liana Lodge stóð undir öllum mínum væntingum, með sínum rómantísku kertaljósum í stað rafmagnsljósa og svartamyrkri á nóttunni. Mér leið eins og ég væri komin heim, eins undarlega og það hljómar. Lyktin, hljóðin, útsýnið, allt var þetta svo kunnuglegt og minningarnar hrönnuðust upp. En á sama tíma var það líka svolítið einmanalegt því ég saknaði Huldu og allra hinna sjálfboðaliðanna sem bjuggu með mér í AmaZoonico fyrir áratug.

Þegar ég fór með Fríðu Maríu upp í kofann okkar um kvöldið heimtaði hún að ég kveikti ljósið. ”Ekkert mál,” svaraði ég og kveikti á tveimur kertum. ”Nei, mamma, ekki þetta ljós, herbergisljósið!” Ég reyndi að útskýra fyrir henni að það væri ekki hægt, en hún var nú ekki á því að samþykkja það og linnti ekki látum fyrr en ég lofaði að lesa fyrir hana uppáhalds bókina hennar og þá róaðist hún og steinsofnaði.

Um nóttina byrjaði aftur að rigna og ég lá andvaka því ég var svo hrædd um að það yrði aftur hellirigning daginn eftir. Við höfðum nefnilega bara hálfan dag eftir í regnskóginum til að skoða AmaZoonico. Ég notaði alla hugarorku sem ég hafði til að óska eftir sólskini, bað til veðurguðanna og hvaðeina. Það virtist virka því um morguninn stytti upp og veðrið var yndislegt.

Það var frábært að sjá AmaZoonico aftur, en líka mjög skrítið. Allt var nokkurn veginn eins en samt allt öðruvísi. Aðalmunurinn var að öll dýrin sem við sáum voru í búrum. Það er ekki lengur leyfilegt að snerta dýrin, dýrahirðarnir mega ekki einu sinni eiga samskipti við dýrin til að reyna að halda þeim eins villtum og mögulegt er. Þetta þýðir að þau dýr sem eru laus eru ekkert að sniglast í kringum fólkið eins og var í þá gömlu góðu daga. Þannig að AmaZoonico virtist bara eins og hver annar dýragarður þar sem öll dýrin eru í búrum, frekar fúlt. En Fríða María svindlaði aðeins því einn apinn í búrinu vildi endilega heilsa henni og automatísk viðbrögð hjá henni voru að heilsa á móti.

Þegar við skoðuðum húsakynni sjálfboðaliðanna voru tengdamamma og mágur hissa á því að ég skyldi hafa getað búið við þessar frumstæðu aðstæður og baðað mig í fossi í tvo mánuði. Eða eins og Bjössi orðaði það: "Þetta er fínn staður til að senda vandræðaunglinga, en ég skil ekki hvernig nokkur maður býður sig fram í að vera hér!"

Þegar komið var að kveðjustund varð ég klökk því allt í einu rann upp fyrir mér að ég myndi líklega aldrei sjá Liana Lodge og AmaZoonico aftur. Það var mjög skrítin tilfinning, snökt snökt.


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter