<$BlogRSDUrl$>

föstudagur, apríl 20, 2007

Ég verð aðeins að monta mig... 

...af honum bróður mínum. Hann er svo mikill snillingur, og ég hef alltaf vitað að hann hefur verið einstaklega hæfileikaríkur teiknari. Ef ég lít til baka þá man ég eftir þónokkrum teiknisamkeppnum sem hann tók þátt í þegar hann var lítill strákur. Og í hvert einasta skipti vann hann!!

Og nú hefur hann endurtekið leikinn. Hann tók þátt í teiknimyndasögu samkeppni á vegum DR - Danmarks Radio, sem er ríkissjónvarp/útvarpið í Danmörku. Og hann (ásamt tveimur öðrum) VANN!! Allir þrír sigurvegarar fengu hver um sig 5000 DK krónur í verðlaun!!

Þið getið skoðað verðlaunasögurnar HÉRNA

TIL LYKKE LILLE BROR!

-

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Ekki fyrir viðkvæma 

Puttinn min er allur að batna og ég fór að vinna aftur strax eftir páska eins og ekkert hefði í skorist. Ég verð nú að láta það fylgja sögunni að kattarskömmin var send til himna daginn eftir bitið.... ekki sem refsing fyrir ódæðið, heldur lá hún fyrir dauðanum og dýralæknirinn ásamt eigendunum ákváðu að hún ætti ekki að þjást lengur. Það var semsagt hennar síðasta afrek í lífinu að senda mig á spítala, ekki lítið afrek hjá 2ja kg ketti sem er nær dauða en lífi.

Ein af mínum fyrstu aðgerðum eftir að ég mætti aftur í vinnu, var að gelda naggrís. Það hljómar ekkert svakalega erfitt, ég meina það tekur ekki nema 2 mín að gelda kött, tekur aðeins lengri tíma með hund en gengur yfirleitt vandræðalaust fyrir sig. En semsagt, ég hafði aldrei gelt naggrís áður, og þekki einn dýralækni á Íslandi sem var voða nervös yfir naggrísa geldingum. Á spítalanum þann daginn voru bara ég og Dr. Jóli, vinalegur eldri kall sem er yfirleitt brosandi og minnir mig pínu á jólasvein. Hann er einn þriggja eigenda spítalans.

Ég ákvað að fresta geldingunni þar til síðast.... tók læðu úr sambandi, gelti hund, dró nokkrar tennur úr ketti, tók nokkrar röntgenmyndir osfrv. Ég var alltaf hálfpartinn að vona að Dr. Jóli myndi klára viðtals tímana sína áður en ég væri búin að þessu, og bjóðast til að gera naggrísa geldinguna...
En nei, áður en ég vissi af var Dr. Jóli farin heim til sín í hádegishlé og ég stóð ein eftir með naggrísinn og hjúkkurnar horfðu á mig spurjandi augum. Yfirhjúkkan tók til máls "Ég veit af hverju Dr. Jóli vildi ekki gelda naggrísinn..... síðasti naggrísinn sem hann gelti, dó eftir aðgerðina!" Mér varð ekki mikð rórra eftir að heyra þetta.
En svo hugsaði ég með mér - hversu erfitt getur verið að gelda naggrís, þetta eru bara eistu og þau þurfa bara að fara!! Svo ég hristi af mér allt óöryggi, náði í "Exotic animals" dýralækna bókina, og fór nákvæmlega eftir því sem stóð þar.

Þegar naggrísinn var sofnaður gat ég hafið aðgerðina - oh boy oh boy hvað naggrísir eru með RIIIISA stór eistu miðað við lítinn líkama, og þegar maður opnar þá er anatómían ekki sú sama og t.d. hjá hundum. Og mér fannst þetta ekki einu sinni líta út eins og í bókinni. Á einhvern klaufalegan hátt tókst mér nú samt að taka eistað út og tjösla þessu saman.
Þá var komið að hinu eistanu.... en..... hvar var það!

"Ég get svarið að ég sá bæði eistun skýrt og greinilega áður en ég byrjaði" sagði ég við hjúkkuna. "Hann hlýtur að hafa dregið það upp í kviðarhol, í tilraun til að bjarga restinni af manndómnum".

Ég bað hjúkkuna um að ýta aðeins á magann, en ekkert gerðist. Svo kom önnur hjúkka og hún reyndi að lyfta frampartinum og reyna þannig á krafta þyngdarlögmálsins. Allt kom fyrir ekki.
Ég byrjaði að panikka, því naggrísir þola illa svæfingu og þessi svæfing stefndi í að verða ansi löng. Yfirhjúkkan fór og hringdi í Dr. Jóla til að fá hann til að koma og hjálpa mér. En það yrðu amk. 10-15 mín þangað til hann myndi birtast.

Ó nei Ó nei..... reynið aftur að ýta á magann, aftur að ýta á magann.... aftur að lyfta... Ekkert hjálpaði! Ég gat heldur ekki skilið naggrísinn eftir með eitt eista, því þá væri aðgerðin algjörlega tilgangslaus.

Það var ekki fyrr en Dr. Potter birtist allt í einu upp úr þurru, að hlutirnir fóru að ganga. Hann þrýsti þéttingsfast á magann, og PLÚBB... eistað var á sínum stað. Hjúkkurnar höfðu bara ekki verið nógu ákveðnar. Ég kláraði aðgerðina, sem tók uþb. klukkutíma í allt.
Ég var dauðhrædd um að naggrísinn myndi ekki lifa svæfinguna af. En hann var frekar hress þegar ég fór heim seinna um daginn, og hann fór heim daginn eftir. Síðan hef ég ekkert heyrt frá eigendunum.... en engar fréttir eru góðar fréttir, ekki satt??

Ég ræddi aðgerðina við Dr. Jóla þegar hann kom aftur; " rúmur klukkutími..... það er nú örugglega met!" sagði hann glottandi, og átti við að þetta væri lengsta naggrísagelding sem hann vissi af. Ég hló kurteisislega, en hugsaði með mér - minn naggrís er allavega ennþá á lífi en þinn síðasti dó HA HA!!

-

mánudagur, apríl 09, 2007

Oft kemur grátur eftir skellihlátur... 

...eitthvað á þá leið hljómaði páskaeggja málshátturinn minn.

En ég er sko ekkert grátandi. Komst heim af spítalanum á laugardag. Var fegin að segja bless við spítalamatinn og gömlu ælandi konuna á móti mér og gömlu emjandi konuna í rúminu við hliðina.

Ég get skrifað með báðum höndum núna, jibbí, og þumalputtinn er mikið betri (þó að það hafi komið gröftur út úr sárunum í dag ojjjjj....) Ég ætla að mæta í vinnuna á morgun og sjá hvort ég geti orðið að einhverju gagni, þó að ég sé ekki orðin 100% góð.

Yfir og út í bili
;-)

-

laugardagur, apríl 07, 2007

Enn og aftur hrakfallabálkur! 

Jæja, það hlaut að koma að því, ég varð náttúrulega að skoða bráðavaktina hér í Brighton. Ég var nánast fastagestur á bráðavöktunum í Reykjavík og Frederiksberg, svo af hverju ætti Brighton að vera einhver undantekning.

Sem sagt, ég mætti í vinnuna á miðvikudagsmorguninn og byrjaði að skoða köttinn Tigger, sem var einn af innlögðu sjúklingunum. Tigger greyið var með nýrnabilun, hjartabilun og ofvirkan skjaldkirtil, og eins og það væri ekki nóg þá var hún líka með sýkingu í munninum og ógeðslegar tennur. Eftir alla nauðsynlega skoðun fór ég að gefa henni pillurnar sínar en hún var eitthvað ósátt og ég var eitthvað klaufaleg við þetta, og henni tókst að lokum að bíta mig.

OHHHHH....hugsaði ég með mér, og byrjaði að skrúbba sárið með sótthreinsandi sápu. Maður fær undantekningalaust sýkingu af kattabitum, og af munninum á Tigger að dæma þá yrði þetta líklega slæm sýking.

Ég fór til læknis um hádegisbil og byrjaði á sýklalyfjum. Svo kláraði ég vinnudaginn eins og ég best gat, en átti erfiðara og erfiðara með að nota vinstri höndina. Tigger hafði bitið mig í þumalinn en mig var farið að verkja í hina fingurna líka. Svo fór ég loksins heim og borðaði dýrindis máltíð sem mamma og pabbi höfðu eldað fyrir mig (þau eru í heimsókn alla páskavikuna). Mér var ekki farið að lítast á blikuna því þumallinn var stokkbólginn og óhreifanlegur, mér var orðið illt í úlnliðnum, olnbogabót og undir handarkrikanum. Vitandi það að ein af hjúkkunum á spítalanum er með ónýta hönd eftir kattabit; þá fannst mér ekki ráðlegt að taka neinn séns.

Ég var komin upp á bráðavakt um hálf-tíu-leitið um kvöldið og þá tók við bið....og bið..... og enn meiri bið....Og meðan á allri biðinni stóð fór ég að finna fyrir beinverkjum. Ég var semsagt komin með hita. Um tvöleitið um nóttina komst ég loksins að og var sett á sýklalyf í æð, en það var ekkert pláss á spítalanum svo ég varð að dúsa á bráðavaktinni í óþægilegu rúmi, með engan kodda eða sæng, ískalt og sífelldar truflanir. Það var ekki mikill svefnfriður þá nóttina.

Daginn eftir var ég loksins færð upp á deild í almennilegt rúm. Ég var orðin hitalaus en puttinn var enn stokkbólginn og rauð rönd hafði myndast alveg upp í olnbogabót. Læknirinn nefndi að kannski þyrfti að framkvæma aðgerð til að hreinsa sýkinguna úr puttanum. Úff nei nei nei ... hugsaði ég.

24 tímum seinna (núna í morgun) var rauða röndin horfin og ég var farin að geta hreyft þumalinn aðeins, þannig að það var hætt við aðgerð (jei jei) og nú sit ég bara hér, á föstudagskvöldi, með sýklalyf í æð og er að skrifa þetta (tekur langan tíma með einni hendi).

Ég er auðvitað búin að fá heimsóknir frá mömmu og pabba, og svo kom Mena, ein af dýrahjúkkunum, í gær með blóm og “get well” kort frá öllum í vinnunni. Og svo kom einn af dýralæknunum í heimsókn til mín í dag, og ég hef líka fengið sms og símtöl frá fleirum. Ofsalega sætt af þeim öllum.

Ég var náttúrulega búin að panta gott veður fyrir mömmu og pabba, og það rættist. En ég er bara föst hér inni, ömurlega glatað. En ég vona að ég fái að fara eitthvað út á morgun...

TO BE CONTINUED.....


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter