<$BlogRSDUrl$>

mánudagur, febrúar 12, 2007

Carla... 

...er ein af næturhjúkkunum. Hún er frá Madríd, Spáni, en hefur búið í Bretlandi í nokkuð mörg ár og á breskan kærasta. Carla er alltaf ofur hress og kát, og heillar alla með smitandi brosi og krúttlegum spænskum hreim.

Ég átti frídag í dag, og hitti hana á kaffihúsi. Síðan fórum við í heimsókn til hennar í Shoreham, sem er lítill bær aðeins vestan við Brighton. Við spjölluðum um allt milli himins og jarðar, og dekruðum við Jonathan, sem er kanínan hennar.

Skemmtilegur dagur, en á morgun tekur vinnan við á ný!

-

laugardagur, febrúar 10, 2007

LOVE / HATE – RELATIONSHIP 

Þetta var fyrsta fjárfestingin okkar saman, og þvílík fjárfesting... það var ást við fyrstu sýn. Lítill rauður Austin Mini, það gæti varla verið breskara. Hann virtist fullkominn fyrir okkar nýja líf í Brighton.

Við höfðum hugsað okkur að nota bílinn í huggulega sunnudagsbíltúra og verslunarleiðangra en aðalhlutverk hans yrði að þjóna sem vinnubíll fyrir mig. Ég er nefnilega að vinna í dótturfyrirtækinu á föstudögum, lítilli klíník fyrir utan Brighton, og það er ómögulegt að komast þangað nema í bíl.

Í fyrstu var ég dauðhrædd við breska umferð. Ég meina, hvað er fólk að spá að keyra vitlausu megin á götunni?! En það reyndist vera lítið vandamál miðað við það sem koma skyldi.

Ég vandist því ótrúlega fljótt að keyra vinstra megin, kannski af því að ég var að einbeita mér svo mikið, ég veit það ekki. Frá fyrsta degi fannst mér það eiginlega ekkert mál, og núna finnst mér það nánast sjálfsagt. En að keyra sjálfan bílinn, það var aftur þrautin þyngri. Hann er auðvitað gamall með tilheyrandi BRUMMM BRUMMM og ýmsum háværum aukahljóðum. Kúplíngin er frekar stíf, og sömuleiðis gírstöngin..... og svo er það innsogið!!! Ég vissi svo sem hvað það var, hafði prófað að nota svoleiðis á traktornum á Sölvabakka í den. En þá keyrði ég bara nokkra hringi á túninu um hásumar. Það er vetur í Brighton, með tilheyrandi rigningu og kulda, og litla rauða bílnum okkar er víst illa við svoleiðis. Það hefur svo sem ekki verið erfitt að koma honum í gang á morgnana, en hann á það til að drepa á sér einhvers staðar á leiðinni, og yfirleitt er það í miðri umferð á háanna tíma þegar allir eru að flýta sér og enginn hefur þolinmæði fyrir stelpugreyi sem er að reyna að koma bílnum sínum í gang. Ég hef átt í stökustu vandræðum með að koma honum í gang aftur, stigið á bensíngjöfina aftur og aftur meðan ég starta, dregið innsogið út, sett það aftur inn, meira bensín.....og þar fram eftir götunum ...þar til LOKSINS fer hann í gang.

En síðastliðinn sunnudag fór hann ekki í gang. Þrátt fyrir að ég hamaðist og hamaðist, gaf honum hvíld og hamaðist svo aftur. Ég var sem betur fer bara rétt fyrir utan blokkina þannig að ég gat ýtt honum aftur í stæðið (kostur við að vera með lítinn léttan bíl!) Þegar Ásberg kom heim reyndi hann líka og ekkert gekk. Jæja, við fengum viðgerðarmann á staðinn, hann gat ekki komið honum í gang heldur og fór með litla greyið á verkstæði. Þar kom í ljós að það var allt á floti í bensíni, eitthvað í sambandi við innsogið nefndi bílakallinn en útskýrði það svo sem ekki nánar, og ég náði í bílinn um kvöldið.

Daginn eftir var ég á leiðinni í vinnuna, nema hvað, druslan drepur á sér og ég verð alveg miður mín. Veit ekkert hvað ég má gera/ má ekki gera í sambandi við innsog og bensíngjöf. Reyni nokkrum sinnum án árangurs að starta bílnum, þess á milli reyni ég að hringja í verkstæðið til að fá leiðbeiningar. Það svarar ekki, og Ásberg er á Íslandi svo nú voru góð ráð dýr. Er stödd á ljósum á leiðinni inn í hringtorg, bílarnir byrja að bíbba en taka loksins fram úr mér. Ég virðist vera föst því ég get ekki ýtt bílnum aftur á bak því umferðin er svo mikil, og ekki get ég ýtt honum inn í hringtorgið. Mér finnst ég vera ein og yfirgefin, að verða of sein í vinnuna og allt ómögulegt. Loks sjá tveir sterkir karlmenn aumur á mér og bjóðast til að ýta mér út úr þessari umferðarþvögu. Ég tek því fegins hendi og kemst á nokkuð rólegri stað þar sem ég legg bílnum og set viðvörunarljósin á.

Næst tók við hlaup í vinnuna sem var ansi langur spotti, en sem betur fer náði ég strætó síðustu kílómetrana. Til að gera langa sögu stutta, þá náði viðgerðarmaðurinn í bílinn fyrir mig, tókst að koma honum í gang, kom með hann í vinnuna og kenndi mér hvernig á að nota innsogið, og mikilvægast af öllu, EKKI stíga á bensíngjöfina þegar ég starta!!! Svo sagði hann mér að vandamálið yrði örugglega úr sögunni í sumar, þetta væri verst núna í þessum kulda.

Þessa stundina veit ég satt að segja ekki hvort ég elska eða hata bílinn minn. Ég verð allavega frekar stressuð í hvert sinn sem ég sest upp í hann. En kannski erum við sálufélagar og þurfum bara að kynnast betur og læra á hvort annað. Þegar allt kemur til alls, þá skil ég hann ósköp vel..... mér er líka frekar illa við kulda og rigningu!!!


-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter