<$BlogRSDUrl$>

sunnudagur, febrúar 27, 2005

London baby 

Fer til Englands í fyrramálið... því verður ekkert blogg næstu daga.
Er að fara með Huldu og fleirum að leika dýralækna og skoða veðhlaupahunda. Gaman gaman. Eigum síðan að skrifa ritgerð um þessa blessuðu hunda.

Planið er að veðja á hraustasta hundinn og vinna þannig fyrir ferðinni. Ég er nú samt ekkert allt of heppin í spilum.

-

föstudagur, febrúar 25, 2005

Það er leikur að læra 

Gærdagurinn markaði tímamót í skólagöngu minni í hinum Konunglega Landbúnaðarháskóla. Í fyrsta sinn í 5 ár var ég í fyrirlestrum þar sem ég hvorki sofnaði né missti einbeitinguna. Ég sperrti eyrun og fylgdist með af miklum áhuga, og tók jafnvel þátt í umræðunum eftir hvern tíma. Og það þrátt fyrir að fyrirlestrarnir hefðu varað frá níu um morguninn til fjögur eftir hádegi.

Hvernig stóð á því?

Ja kannski vegna þess að loksins var fjallað um það sem ég hef haft brennandi áhuga á í gegnum allt námið, en aldrei hefur verið hluti af námsefninu. Efnið var sem sagt: Hundaræktun og öfgar í þeim efnum, siðfræði, og síðast en ekki síst hundaþjálfun og hegðunarvandamál.

-

miðvikudagur, febrúar 23, 2005

húsfundur 

Í dag var svo hinn árlegi húsfundur. Þar var eins og venjulega rifrildi milli ellilífeyrisþeganna og okkar námsmannanna. Hápunkturinn varð þó hinn eilífi ágreiningur um hundahald og hvort að kúkurinn í garðinum sé eftir ref eða einn af hundunum okkar. Ég gat auðvitað ekki setið á mér og varð að minnast á óréttlátar skammir í minn garð frá ónefndri gamalli konu sem stödd var á fundinum. Ég fann ískallt augnaráð umræddrar konu á mér, en svo tóku aðrir í sama streng og nefndu dæmi um óþarfa skammir og skapvonsku eldri búanna.

En sem sagt, nú er ég allt í einu komin í hússtjórn, með sæti næstu tvö árin. En það var alls ekki ætlunin... ég mætti bara til þess að fá ókeypis smørrebrød og gos.

-

mánudagur, febrúar 21, 2005

Fagur fagur fiskur í sjó.... 

Ég veit alveg að það eru fleiri fiskar í sjónum... meira að segja fullt af þeim. Ég nenni bara ekki að kynnast öllum þessum fiskum. Sumir fiskar virðast vera skemmtilegir við fyrstu kynni, en eru síðan bara leiðinlegir. Svo eru til fallegir og litríkir fiskar, en oft býr flagð undir fögru skinni. Hvernig á maður eiginlega að sortera í þessu fiskaúrvali?

Hvað á ég svo að gera ef ég hitti fisk sem virðist vera fullkominn að öllu leyti, og viðkomandi fisk líst einnig vel á mig, en svo kemst ég að því að hann er með ofnæmi fyrir dýrum???
(þetta er bara svona teoretískt dæmi, ég er ekki að segja að ég sé búin að hitta einhvern fisk!!)

-

sunnudagur, febrúar 20, 2005

Brjálaðir "bílistar" 

Danskir bílstjórar eru upp til hópa óþolinmóðir, óvarkárir og ókurteisir, en eftir að hafa hjólað í þessari borg í 5 og 1/2 ár hef ég samt aldrei lent í öðru eins og í gær. Ég var í sakleysi mínu að hjóla á H.C.Ørstedsvej þegar bílstjórinn við hliðina á mér varð eitthvað óþolinmóður og ákvað að taka fram úr öllum hinum bílunum... tók skyndilega hægri beygju - ég hrökk við og reyndi að koma í veg fyrir árekstur - sem tókst ekki betur til en svo að ég hálfdatt og rak hnéð illa í - og svo strunsaði bíllinn í burtu eftir að hafa verið millimetra frá því að keyra á mig, sem hefur ómögulega getað farið fram hjá viðkomandi bílstjóra. En hvað er svo sem einn hjólreiðamaður til eða frá...!

Fyrir utan þetta leiðinlega atvik er helgin, og þar með talinn föstudagurinn, búin að vera skemmtileg. Ég átti ansi hressilegt viðtal við lífeðlisfræði-prófessorinn á föstudaginn. Og nú er það ákveðið að hann verður leiðbeinandi minn að lokaverkefninu.
Þetta viðtal var nokkurn veginn svona...þýtt yfir á íslenska tungu:

PRÓFESSOR: jæja hvað töluðum við um síðast þegar við hittumst...í nóvember var það ekki?!
FREYJA: emmm...að ég ætti að skoða og skrifa um SK 2 kanaler i hundahjörtum...
PRÓFESSOR(glottandi): já var það ha ha.... það er svo margt búið að breytast síðan í nóvember ha ha ha... við erum nefnilega búin að komast að því að þau í Kaliforníu, sem eru að rannsaka það sama og við, höfðu rangt fyrir sér hje hje hje..... þannig að nú áttu að rannsaka allt annað, nefnilega SK 3 kanaler!!
FREYJA(reyni að virka mjög áhugasöm): nú já en spennandi
PRÓFESSOR(iðar allur í skinninu og getur vart bælt niður hláturinn): já sjáðu til, vísindarannsóknir eru eins og íþróttir. Þeir sem rannsaka það sama eru alltaf að keppast um að vera fyrstir með niðurstöðurnar... og því miður náðu þau í Kalíforníu að vera á undan okkur síðast, eeeeeen nú erum við búin að sanna það að niðurstöður þeirra voru rangar..... þetta voru allan tímann SK 3 kanaler ekki SK 2...hjehjehje...
FREYJA: Jahá, ég get varla beðið eftir því að byrja...
PRÓFESSOR: Jæja það er föstudagur, viltu ekki fá þér einn öl með okkur hinum?
FREYJA: ha jú jú takk...

-

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Hár rafmagnsreikningur 

Ég verð að viðurkenna að mér finnst ekkert skemmtilegt að búa ein. Það getur oft verið einmanalegt að búa fjarri heimalandinu alveg alein í lítilli íbúð á Frederiksberg. Yfirleitt hef ég búið með vinkonu, gæludýri eða kærasta (líka nokkurs konar gæludýr!!). En nú er ég EIN OG YFIRGEFIN!!

Þetta er meira að segja svo slæmt að ég á erfitt að koma heim í tóma íbúðina með öll ljós slökt. Þá dynur yfir mig sorgin og einmanaleikinn og ég kjökra "enginn tekur á móti mér búhúhúúúúú".

Það er ennþá soldið fast í mér, síðan ég var hundaeigandi, að skilja eftir ljósin kveikt áður en ég fer út. Og þá kom Míó alltaf og tók á móti mér með allri þeirri lífsgleði sem til var í hans litla kroppi "jibbí mamma þú ert komin heim, ég er búin að sakna þín elsku mamma mín..!" Eða það var allavega það sem ég ímyndaði mér að hann væri að reyna að segja.

En sem sagt, ég skil ennþá af og til eftir ljósin kveikt, og hef alltaf kveikt á tölvunni og skil jafn vel útvarpið eftir í gangi, þegar ég fer út. Þá finnst mér einhvern veginn eins og það sé einhver heima þegar ég kem aftur...... ég er skrítin ég veit.

Og þó að ég borgi hærri rafmagnsreikning en ella.... þá er það þess virði. Hamingjan er ekki mælanleg í peningum, og ef það eru útvarpsraddir og ljós sem þarf til, til að gera mig hamingjusama, þá er það réttlætanlegt í mínum augum.



"I never married
never had those kids
I loved too many
now heaven´s closed its gates"

Emiliana Torrini
(nýi diskurinn hennar er frábær!)

-

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

bumbulínur 

Þetta er eitthvað séríslenskt fyrirbæri að eignast börn meðan maður er í námi. Hér í Danmörku heyrast ekki hamingjuóskir þegar háskólastúlka hvíslar að vinkonum sínum að hún sé ólétt, heldur "ó nei, ertu búin að panta tíma í fóstureyðingu?". Jú reyndar eru bumburnar aðeins farnar að birtast í skólanum mínum núna, en það eru bara stelpurnar sem eru á síðasta ári eins og ég... nú er það sem sagt í lagi að fara að fjölga mannkyninu.
En íslensku dýralæknastelpurnar svíkja ekki föðurlands-hefðina og unga út hver á fætur annarri. Sif var með ungabarn þegar hún byrjaði í náminu, Sunna eignaðist eitt á þriðja ári og er nú ólétt að öðru, Maríanna lék þetta nákvæmlega eftir Sunnu, Hildur er á öðru ári og komin 7 mánuði á leið, og svo var ég að heyra orðróm um að enn ein íslenska stelpan væri ólétt...nefni engin nöfn.
Mér finnst þetta nú bara voða fallegt að íslendingar bjóði öll börn velkomin í heiminn. Sérstaklega ef fólk er í föstu sambandi, þá er námstíminn ekkert verri tími en einhver annar.... jafnvel bara betri.

Eitt að lokum. Hildur er semsagt komin 7 mánuði á leið... en ég komst ekki að því fyrr en í gær að hún væri bomm!! Og hún býr í stigaganginum mínum svo ég sé hana næstum því á hverjum degi. Þetta er einhver sú minnsta bumba sem ég hef nokkurn tíman séð.... ég hefði ekki giskað á meira en 3-4 mánuði.

-

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

þá er það ákveðið.. 

..ég fer til Hollywood og finn Matthew McConaughey og bið hann um að giftast mér. Og ef hann vill það ekki, þá fer ég til Afríku og helga líf mitt því að bjarga górillum úr útrýmingarhættu. Alveg eins og Dian Fossey.

Sá "How to lose a guy in ten days" með Söru og Charlotte, svo sem ágætis hugmynd að söguþræði. En það sem virkilega gerir þessa mynd að góðri afþreyingu er hann Maþþjú kallinn. Eins og hún Sara orðaði það: "han er jo bare nydelig!!"

Var að uppgötva að "hver er drFreylittle" síðan mín er frekar úrelt. Dýragarðurinn minn með páfagauknum, hundinum og apanum er jú ekki lengur til staðar. Það er ekkert líf í litlu íbúðinni minni lengur... nema kannski í ísskápnum... ojbara

-

MYNDIR 

Jæja þá eru myndirnar frá helginni komnar á netið. Vantar myndir af nokkrum ýmist vegna þreytu eða tæknilegra örðugleika.

-

sunnudagur, febrúar 13, 2005

stíft prógramm 

Með aðeins 85 tíma til ráðstöfunar á Íslandi mátti ég engan tíma missa, svefn flokkaðist því undir óþarfa tímasóun.

Fimmdudagurinn var helgaður Maju, Guðrúnu og Sólrúnu. Bestu vinkonur sem hægt er að hugsa sér. Maja litla var á leiðinni í rómantíska helgarferð til Boston með honum Dassa sínum, en ég náði sem betur fer að hitta hana smá.

IDOL var auðvitað málið á föstudagskvöldið, sá það með Sólinni og Fríðu systur. Fyndið hvað þetta er vinsælt á Íslandi, í Danmörku er mjög leim að viðurkenna að maður horfi á Idol. Er náttúrulega búið að vera allt of mikið af þessum þáttum þar: Idol, Popstars, Stjerne for en aften og fleira. Ég horfi svona á það í laumi öðru hvoru, en nú er ég búin að fá skýringuna af hverju mér finnist svona gaman að þessu. Ég er Íslendingur.

Fríða kynnti mig fyrir íslensku næturlífi á föstudagsnóttina. Jú ég hef auðvitað djammað á Íslandi áður, en það var "i den" og nú var kominn tími til skoða þetta allt upp á nýtt. Ég ætlaði reyndar bara að vera róleg og "ekki vera lengi" og "bara drekka smá". En það er auðvitað ekki hægt þegar systir mín er annars vegar. Við fórum á Ölstofuna, Vegamót, Sólon, Prikið, einn hræðilegan stað sem ég man ekki hvað heitir, Pravda og svo enduðum við á Glaumbar. Ég staulaðist svo heim um 6 leitið.

Ég reyndi að ignora þynnkuna á laugardeginum og dreif mig í smá fjölskyldu hittelsi á Hótel Borg, eftir aðeins 4ra tíma svefn. Svo lá leiðin á Meistaravellina til Siggu Pé og það var nú meget hyggeligt. Sigga alltaf jafn hress.

Svo var innflutningspartý hjá Guðrúnu um kvöldið og það var svaka stuð. Skemmtilegur kokteill af ættingjum Guðrúnar, skiptinemum, gömlum MR-ingum og svo aðrir vinir Guðrúnar sem ég hef aldrei séð áður. M.a. 4ði kynþokkafyllsti karlmaður Íslands og bloggari með meiru... Hann var með stæla og hótanir um að setja mig á svartan lista bloggara. Veit nú ekki af hverju...ég var kannski eitthvað að kynda smá í honum, en ég hvet alla trygga lesendur bloggsins míns (ca 7 talsins) að bojkötta bloggið hans Gumma Jóh!! HVER ER ÞAÐ??! Já einmitt það sem ég vildi segja.

Já og svo kíktu Lalli og Óli í partýið í 5 mínútur. Skemmtilegir endurfundir, hef ekki séð þá í að minnsta kosti 6 ár... og það er örugglega ennþá lengra síðan. Vildi auðvitað festa þessa yndislegu stund á filmu, eða hvað segir maður nú til dags.. stafrænt minniskort..neeeeee, hljómar ekki eins vel. En sem sagt myndavélin neitaði, kannski var myndefnið ekki nógu gott, no affence hehe.

Svo lá leiðin niður í bæ eftir að hafa kvatt húsráðandann "Sleeping beauty". Tjúttuðum fram í rauðan dauðann á Hressó...ansi hressilegur staður.

Á sunnudeginum var ég farin að líkjast vofu..var svo þunn og þreytt að ég var næstum því glær. En það var ekkert elsku mamma, var bókuð í kaffiboð hjá æskuvinkonu minni henni Jóhönnu Svölu. Jóhanna og Anna voru búnar að útbúa hinar mestu kræsingar, og það var alveg æðislegt að sjá þær og litlu krílin þeirra og bumburnar. Takk fyrir þetta stelpur, við verðum að hittast aftur í sumar.
Svo var hittelsi með Bergrós og Helgu síðasti dagskrárliður. Þar gleymdi ég alveg að draga upp myndavélina...en það var kannski eins gott, við vorum allar þrjár svo þunnar og þreyttar að það hefði verið frekar myglað myndefni.

Flaug síðan heim eldsnemma í morgun og hitti fyrir algjöra tilviljun hana Önnu Kristínu og litlu dóttur hennar. Fékk að sitja við hliðina á þeim í vélinni og það var voða skemmtilegt.

Jæja þetta var sem sagt helgin eins og hún lagði sig.... og nú ætla ég líka að leggja mig enda komið miðnætti og ég er vægast sagt úrvinda. Myndirnar frá helginni koma á morgun! Góða nótt.

-

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Ég hata að pakka 

Mér finnst ofsalega gaman að ferðast. Og ekki síst til Íslands því ég hlakka svo til að knúsa mömmu og pabba og systkini mín, og svo hitta allar vinkonurnar. En þrátt fyrir alla tilhlökkunina þá nenni ég aldrei að draga ferðatöskuna fram og pakka niður, fyrr en á síðustu stundu. Af hverju finnst mér svona leiðinlegt að pakka niður, ég veit það eiginlega ekki. Það er ekki eins og það sé eitthvað erfitt....

-

sunnudagur, febrúar 06, 2005

Fastelavn er mit navn..boller vil jeg have...hvis jeg ikke boller får...så laver jeg ballade 

Ég hlakka svo til að verða gömul kona. Ég ætla að vera svona skemmtileg amma og barnabörnin vilja alltaf koma í heimsókn. Og á sunnudögum koma öll börnin og barnabörnin í kaffi/kakó og pönnukökur og þá er glatt á hjalla!!

Bara svona smá framtíðarsýn.....ég er nátttlega bara 26 ára svo það er væntanlega soldið langt í að verða amma.

Það er Fastelavn í Danmörku í dag. Fattaði það þegar ég fór í bakaríið og það var brjálað að gera, allir að kaupa fastelavns-boller. Ég keypti nú bara mjólk og súkkulaðibitaköku. Á heldur engan búning eða neitt..... svo ég býst nú ekkert við að taka þátt í þessum fastelavns-hátíðarhöldum þetta árið, hehe.

Þetta er annars búið að vera alveg frábær helgi. Enginn skólalærdómur, engin vinna og engar áhyggjur eða samviskubit yfir að vera ekki nógu dugleg. Fór í bíó með Huldu á föstudagskvöldið, á "Closer". Mæli með henni. Í gær kom Rósa í þriggja rétta máltíð hjá mér og við horfðum á "Den eneste ene" í sjónvarpinu. 4ða sinn sem ég sé þá mynd....hún er alltaf jafn sæt. Og svo er ég búin að fara í líkamsrækt bæði í gær og í dag: ÓGISLEGA DUGLEG MAR

Og í kvöld er ég að fara á smá deit.... en það er leyndó með hverjum....

-

miðvikudagur, febrúar 02, 2005

koddaslagur 

Jæja þá er ég loksins komin með orku til að ráðast í það yfirþyrmandi verkefni að taka til og þrífa í íbúðinni minni. Hefur ekki verið meira en kattaþvottur og málamynda tiltektir síðastliðna 2 mánuði.

Fyrst á dagskrá: skipta á rúminu!
Ég fékk e-n tíman köflótt rúmföt í jóla- eða afmælisgjöf frá M&P. Mjög smekkleg rúmföt sem hafa verið í miklu uppáhaldi. Fékk auðvitað sett með fyrir tvær sængur og tvo kodda, það lá beinast við þar sem ég var í sambúð á þeim tíma ef ég man rétt. En síðan þá hef ég bara haft eina sæng og tvo kodda, þannig að ég verð alltaf að vanda mig við að nota bæði sængurverin jafn mikið og þvo þau jafn oft, svo annað upplitist ekki meira en hitt, svo það líti nú vel út ef ég nú einhvern tímann vonandi kannski gifti mig áður en þessi blessuðu rúmföt eru orðin gatslitin.
En semsagt nú dró ég hitt sængurverið fram, en þar sem ég er með tvo kodda, þá eru bæði koddaverin í stíl farin í þvott. Hmmm, svo á ég bara stök koddaver sem auðvitað passa ekkert við köflótta sængurverið mitt. En svo allt í einu gerði ég mér grein fyrir því að það þarf ekkert alltaf allt að vera í stíl. Hver á svo sem eftir að sjá þetta, ég sef jú ein og hver sem kemur í heimsókn sér jú bara rúmteppið sem hylur allt saman.

Þannig að nú er:
grænt lak
brún köflótt sæng
bleikur koddi með svörtum doppum
hvítur koddi með bláum blómum

Voða voða fínt
En svo getur maður spurt sig....af hverju er ég með tvo kodda? Ekki er ég með tvö höfuð. Og ég hef ekki haft kærasta í 4 1/2 mánuð, og ekki haft kærasta sem hefur sofið í rúminu mínu í rúmt ár.
Er þetta bara gamall vani? Lítur kannski betur út undir rúmteppinu í tvíbreiðu rúmi? Eða er þetta kannski bara veik von um næturselskap fyrr en síðar?

-

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

Site Meter